Tilkynningar

DÁSAMLEGUR MATUR SEM ALLIR GETA NOTIÐ Uppskriftabókin Kræsingar sem Astma og...
Opnunartími skrifstofu
Gerast félagi
ao vidbragsaaetlun hnappur

Skráning á póstlista

Minningarkort
Tímarit
Fræðslumyndbönd
Medic Alert
SÍBS

 

 

 ht logo big neg1

Pistill frá formanni


frida run thordardottirÁgætu félagar og aðrir lesendur haustblaðs Astma- og Ofnæmisfélags Íslands.

Það er mikið um að vera í íslensku samfélagi þessa dagana. Helstu fréttirnar sem snúa beint að okkur sem hagsmunafélagi sjúkra er niðurskurður til Landspítalans og möguleg álagning legugjalda til sjúklinga sem þar leggjast inn. Þetta eru ekki jákvæð tíðindi en það sem er mikilvægast er að við höldum áfram okkar góðu vinnu með jákvæðnina í fyrirrúmi. Það er það besta sem við getum gert og mun alltaf skila okkur árangri.

Það eru breytingar innan okkar nærsamfélags en Öryrkjabandalags Íslands stendur á nokkrum tímamótum er nýr formaður, Ellen Calmon, tók við af Guðmundi Magnússyni. Fyrir hönd AO vil ég þakka Guðmundi Magnússyni fráfarandi formanni fyrir samvinnuna við félagið í gegnum tíðina og bjóða for nýjan mann Ellen Calmon velkomna í nýtt embætti.

Blaðið okkar er mjög fínt og upplýsandi að vanda og vonandi finna allir þar fróðleik og gullkorn sem þeir geta nýtt fyrir sig og sína. Sem formaður vil ég þakka ritnefndinni kærlega fyrir þeirra faglegu vinnu. Ákveðið var að hafa þema blaðsins tengt astma – ofnæmi – vetri og jólum og er það vel til fallið og spennandi að sjá hvernig tekst til.

Við í stjórn félagsins höfum ekki setið auðum höndum í haust. Héldum góðan vinnufund snemma í haust þar sem farið var yfir það hvaða verkefni við erum með í höndunum í dag og hvaða verkefni við ætlum að beina sjónum okkar að á afmælisárinu, en þann 24. apríl nk. verður AO 40 ára. Talandi um afmæli þá má ekki gleyma afmæli SÍBS sem er 75 ára á árinu og gefur út af því tilefni veglegt rit um sögu sína, fólk og starfsemi. Þrátt fyrir að þetta sé góð hugmynd og mikilvæg fyrir slík samtök mun AO ekki feta í þeirra fótspor heldur taka okkur önnur verkefni fyrir hendur.

Útgáfumál ýmiskonar hafa verið ofarlega á baugi og ber fyrst að nefna uppskriftabókina Kræsingar sem farið hefur vel af stað og við vonum að verði notuð við jólabaksturinn og hátíðarmatseldina á sem flestum heimilum. Önnur útgáfustarfsemi snýst um samvinnuverkefni AO og Glaxo Smith Kline við að endurútgefa bæklingana um fæðuofnæmi, frjóofnæmi, astma hjá börnum og astma hjá fullorðnum. Sérfræðingarnir Sigurveig Þ. Sigurðardóttir, Kolbrún Einarsdóttir, Björn Árdal, Davíð Gíslason, Unnur Steina Björnsdóttir, María Ingibjörg Gunnbjörnsdóttir og Fríða Rún Þórðardóttir fá hjartans þakkir frá stjórn félagssins fyrir sína óeigingjörnu vinnu. Ekki má gleyma að þakka Glaxo Smith Klein og Ríkarði Q. Róbertssyni þeirra manni fyrir stuðninginn án þeirra hefði þetta ekki verið mögulegt.

Bæklingnum um fæðofnæmi verður meðal annars dreift innan skólakerfisins til að upplýsa og fræða þá sem hafa með matarmál barna og ungmenna að gera. Myndbönd sem AO hefur látið gera á síðastliðnum árum eru komin til námsgagnastofnunar og þar getar skólar nálgast þau og notað við kennslu.

Matreiðsluþættirnir sem ráðist var í að gera síðla árs 2012 eru tilbúnir en bíða þess að komast í sýningu. Það verður kynnt á heimasíðu félagsins þegar þar að kemur.

Eitt af hlutverkum stjórnar AO er að leita hagstæðra kjara fyrir félagsmenn þegar kemur að lyfjum og slíkum nauðsynjum. Enn á ný hefur samist vel við Lyfjaval sem er annar helsti styrktaraðili félagsins. Innan fárra vikna mun félagsmönnum berast kortin í pósti með skýringum á þeim kjörum sem Lyfjaval býður.

Sem formaður er mér kært og skilt að minna á félagsgjöldin. Þau eru félaginu afar mikilvæg því það kostar að halda starfsemi félagsins og þjónustu úti. Því skora ég á félagsmenn að bregðast við þegar gíróseðlarnir verða sendir út.

Að lokum er það ný heimasíða sem er alveg við það að verða tilbúin og mun sú síða verða í mun nýtískulegra útliti heldur en sú gamla og upprunalega. Efnið af gömlu síðunni verður flutt yfir og verður því áfram til staðar en fleiri möguleikar munu bjóðast við innsetningu á efni og myndböndum.


Með kveðju

Fríða Rún Þórðardóttir
Formaður Astma- og Ofnæmisfélags Íslands.

Póstlisti AO

Fáðu sendar tilkynningar og fréttir af starfi AO