Tilkynningar

DÁSAMLEGUR MATUR SEM ALLIR GETA NOTIÐ Hin breska Alice Sherwood er...
Opnunartími skrifstofu
Gerast félagi
ao vidbragsaaetlun hnappur

Skráning á póstlista

Minningarkort
Tímarit
Fræðslumyndbönd
Medic Alert
SÍBS

 

 

 ht logo big neg1

Fyrirbyggjandi, bólgueyðandi lyfjameðferð

Astmi er langvinnur sjúkdómur. Sjúkdómurinn orsakast af aukinni viðkvæmni og bólgum í berkjuslímhúð sjúklinga. Þau lyf sem fyrirbyggja þessar slímhúðarbreytingar eru innönduð steralyf eða ofnæmislyf. Hér verður mest fjallað um bólgueyðandi steralyf.

Fyrirbyggjandi lyf s.s. bólgueyðandi sterar eru einu lyfin sem slá á bólguna í berkjunum. Bólgueyðandi lyf minnka bólgu og þrota í slímhúðinni og draga úr slímmyndun. Að auki verða berkjurnar ekki eins viðkvæmar svo að síður er hætt við því að berkjurnar dragi sig saman þótt þær verði fyrir áreiti. Bólgueyðandi, fyrirbyggjandi lyfin hindra síðan að þessi viðkvæmni berkjanna aukist aftur. Því er afar nauðsynlegt að þessi lyf séu tekin stöðugt, kvölds og morgna, jafnvel þó að sjúklingur sé einkennalaus. Ef þú ert einkennalaus er það nefnilega merki um að lyfin verki rétt.

Steralyf til innöndunar fást sem þrýstingsúðar og þurrduft til innöndunar. Þegar lyfinu er andað að sér, lendir eitthvað í munni og hálsi en nægilegur hluti lyfsins fer niður í lungun, þar sem þeim er ætlað að verka. Hlutinn sem í lungunum lendir er nægilega öflugur til að veita veruleg áhrif en sá hluti sem berst til líkamans um munn og meltingarfæri brotnar fljótt niður og því sáralítil hætta á aukaverkunum. Þessi bólgueyðandi lyf tapa engri verkun við langtímanotkun og líkaminn verður ekki háður þeim á nokkurn hátt, en ef þú hættir að nota lyfin er hætta á að bólgan komi aftur í lungun og einkennin birtist á ný.

Hvað eru steralyf?

Sterar er samheiti fyrir flokk efna sem m.a. inniheldur margs konar hormón. Meðal þeirra eru nýrnahettuhormónar (barksterar), sem eru lífsnauðsynleg efni sem myndast í nýrnahettunum. Einn þessara hormóna er kortisón, sem er virkt í meðferð á astma. Steralyf við astma eru sams konar efni og þetta náttúrulega hormón líkamans og verka á svipaðan hátt. Steralyf sem notuð eru í meðferð á astma eru ekkert skyld kynhormónum eða anabólískum sterum, sem fólk er kannski hræddast við.

Hvenær á að nota innönduð steralyf?

Þurfir þú að nota berkjuvíkkandi lyfin oftar en 3svar í viku eða ef þú vaknar upp um nætur vegna astmaeinkenna s.s. hósta, ættir þú að ráðfæra þig við lækninn um hvort ekki sé rétt að þú fáir meðferð með fyrirbyggjandi lyfjum, þ.e. bólgueyðandi steralyfjum. Þú munt ekki finna verkun slíkra lyfja alveg strax því það tekur þau nokkra daga eða jafnvel 1-2 vikur að fara að hafa merkjanleg áhrif á astmann. Sama gildir þegar töku þeirra er hætt, astminn versnar þá yfirleitt ekki fyrr en 1-2 vikum síðar. Það er afar mikilvægt að astmasjúklingar geri sér grein fyrir nauðsyn þess að fylgja lyfjameðferð með innönduðum steralyfjum, þau eru einu lyfin sem geta fyrirbyggt versnandi sjúkdómsástand.

Hvaða aukaverkanir fylgja innönduðum steralyfjum?

Stöku sinnum sést þruska eða sveppasýking í munnholi við notkun innandaðra steralyfja, einkum hjá fullorðnum. Þá sést líkt og skán í góm eða hálsi. Hægt er að draga úr líkum á þessu ef notaðir eru þrýstingsúðar með áföstum úðabelg, en slíkur belgur dregur úr því lyfjamagni sem sest í munnhol. Þá er mikilvægt að skola munninn vel eftir töku lyfsins og spýta út. Tannburstun er einnig gott ráð. Sumir sjúklingar fá hæsi, verða rámir. Ekki er til annað ráð við því en að draga úr skömmtum. Ráðfærðu þig við lækni ef þú hefur spurningar varðandi aukaverkanir lyfja sem þú notar.

Hvað hefur ómeðhöndlaður astmi í för með sér?

Bráðatilfelli astma, þ.e. slæm astmaköst sjást enn. Þá þarf að leggja sjúkling inn á sjúkrahús um lengri eða skemmri tíma. Slík bráðatilfelli má oftast koma í veg fyrir með réttri notkun fyrirbyggjandi, innandaðra steralyfja. Vanmeðhöndlun á astmanum leiðir oftast til þess að: 

  • astmakast skapast við áreynslu 
  • nætursvefn tapast, þú vaknar með astmaeinkenni 
  • lungun verða næmari fyrir áreiti 
  • lungnastarfsemi versnar, blásturspróf sýna fallandi mæligildi 
  • langvinnur skaði verður á slímhúð berkjanna 

Ekki er hætta á alvarlegum aukaverkunum af innandaðri steralyfjameðferð og ljóst er að afleiðingar illa meðhöndlaðs astma eru miklu alvarlegri en hugsanlegar aukaverkanir lyfjanna.

Dæmi um innönduð steralyf

Á íslenskum lyfjamarkaði eru steralyf s.s. Flixotide, Pulmicort, Beklomet o.fl. Lyfjaverslanir veita upplýsingar um lyf sem þú notar. Ráðfærðu þig við lyfjafræðing í næstu lyfjaverslun.

Hvernig á að taka lyfin?

Margvísleg lyfjaform og hjálpartæki eru til, svo að auðvelt á að vera að finna eitthvað sem passar hverjum sjúklingi.

Venjulegir þrýstingsúðar og ýmis form þurrdufttækja gagnast flestum astmasjúklingum ágætlega. Ung börn og sjúklingar með verulega skerta lungnastarfsemi eða þeir sem ekki geta samræmt innöndun og skömmtun úr þrýstingsúðatækjum geta notfært sér hina ýmsu úðabelgi sem fást til notkunar með slíku lyfjaformi. Úðabelgur er ílangur plast- eða stálkútur. Á öðrum enda hans er gat fyrir úðann en á hinum endanum er munnstykki eða andlitsgríma. Úðabelgir eru mismunandi fyrir mismunandi lyf og sjúklinga. Læknar og lyfjafræðingar geta sagt þér hvaða hjálpartæki passa við þitt lyf. Mundu að fylgja vel leiðbeiningum framleiðenda um notkun og hreinsun úðabelgjanna.

Lyfin eru einnig til sem lausn í öndunarvélar. Slíkar vélar breyta lausninni í gufu sem sjúklingur andar síðan að sér. Þessar vélar eru einkum notaðar á heilsugæslu- og sjúkrastofnunum.

Steratöflur, verkun og aukaverkanir.

Töflur eru einkum notaðar þegar astminn er svo erfiður að ekki er víst að innönduðu lyfin komist örugglega niður í lungun. Stuttur töflukúr með steratöflum getur oft verið lífsnauðsynlegur og stytt verulega astmaköst og flýtt fyrir bata. Slíkir stuttir töflukúrar hafa venjulega engar eða sáralitlar aukaverkanir.

Við langvarandi meðferð með steratöflum dregur líkaminn úr eigin framleiðslu á sterum. Því er nauðsynlegt að hætta ekki löngum töflukúr skyndilega, heldur draga rólega úr skömmtum. Þannig gefst líkamanum tími til að auka sína eigin framleiðslu á sterum.

Nokkrir astmasjúklingar þurfa reglulega viðhaldsmeðferð með steralyfjum í töfluformi. Þú skalt í samvinnu við lækni finna þann minnsta skammt sem getur haldið sjúkdómnum í skefjum. Innandaðir sterar geta dregið úr þörf fyrir stera í töfluformi en stundum þarf að nota hvort tveggja saman.

Langtímameðferð með steratöflum í stórum skömmtum getur leitt til alvarlegra aukaverkana. Þar má nefna að stórir skammtar geta dregið úr vaxtarhraða barna, sjúklingar fá n.k. marbletti á húð, sár gróa seinna og bein verða viðkvæmari vegna úrkölkunar. Þróun nýrra, öflugri og öruggari steralyfja til innöndunar hefur dregið verulega úr þörf á langtímanotkun slíkra lyfja í töfluformi.

Dæmi um steralyf í töfluformi eru t.d. Prednisólon töflur. 

Póstlisti AO

Fáðu sendar tilkynningar og fréttir af starfi AO